Vísindakakó
Vísindakakó er vettvangur fyrir áhugasöm ungmenni og íslenskt vísindafólk til að eiga opið og óformlegt samtal um vísindaleg málefni. Einu sinni í mánuði býður íslenskur vísindamaður upp á stutta kynningu á fræðastörfum sínum eða áhugaverðum þáttum þeirra sem frumlag í umræðu um vísindin og vísindastarfið. Viðburðirnir auka aðgengi námsfúsra ungmenna að forvitnilegum spurningum og kynnir þeim fyrir ólíkum vísindalegum hugðarefnum sem hægt er að taka sér fyrir hendur.
Fyrirmynd verkefnisins eru hin þekktari Vísindakaffi þar sem almenningi gefst kostur á að ræða á óformlegum nótum við vísindafólk í afslöppuðu umhverfi. Vísindakakó er þó ólíkt Vísindakaffinu á þann hátt að það er sérstaklega miðað að börnum og ungu fólki. Vísindakakó er samstarfsverkefni Nýmenntar, Rannís, og Borgarbókasafnsins, og fékk styrk úr Vísindi og velferð, styrktarsjóði Sigrúnar Júlíusdóttur og Þorsteins Vilhjálmssonar, haustið 2023.
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar gefa:
Martin Jónas Björn Swift, verkefnastjóri við Nýmennt
Davíð Fjölnir Ármannsson, verkefnastjóri við Rannís