Stækkaðu framtíðina
Ef þú eða þinn skóli hefur áhuga á að taka þátt í að þróa verkefnið Stækkaðu framtíðina með okkur á næstu mánuðum endilega hafðu samband við Rögnu Skinner ragnaskinner@hi.is
Stækkaðu framtíðina er verkefni fyrir alla grunn- og framhaldsskóla landsins og felst í því að sjálfboðaliðar af vinnumarkaði heimsækja kennslustundir til að lýsa starfi sínu, segja nemendum frá því hvernig nám þeirra hefur nýst og hver bakgrunnur þeirra er.
Þannig miðar verkefnið að því að öll börn og ungmenni:
- Hafi jöfn tækifæri og aðgang að fjölbreyttu námi og störfum sem er í samræmi við áhuga þeirra og hæfileika.
- Sjái þá möguleika sem standa þeim til boða, óháð bakgrunni og staðsetningu.
- Fái tækifæri til að kynnast ólíkum störfum og heyra sögur frá fólki af vinnumarkaðinum.
- Upplifi aukinn áhuga og sjái tilgang með námi sínu.
Nú á vormánuðum verður verkefnið kynnt nánar í grunn- og framhaldsskólum landsins og netvettvangur þróaður sem mun gera kennurum og starfsfólki skólanna kleift að leita auðveldlega að sjálfboðaliðum eftir t.d. starfsvettvangi, námi og staðsetningu.
Til að byrja með verður sjálfboðaliðum safnað saman í gagnagrunn, en stefnt er síðan að því að opna verkefnið og hefja heimsóknir í haust. Skráning sjálfboðaliða fer á heimasíðunni: Stækkaðu framtíðina – Inspiring the future (staekkaduframtidina.is)
Alþjóðlegt verkefni
Stækkaðu framtíðina er íslensk útgáfa af breska verkefninu Inspiring the Future. Verkefnið hóf göngu sína í Bretlandi árið 2012, er rannsóknamiðað og hafa um 75.000 sjálfboðaliðar tekið þátt í því. Verkefninu er einnig haldið úti í Ástralíu, Nýja Sjálandi og Sviss og teygir anga sína víðar.
Stækkaðu framtíðina er hugsað sem samstarfsvettvangur ólíkra hagsmunaaðila en NýMennt (Nýsköpun og menntasamfélag á Menntavísindasviði HÍ) heldur utan um innleiðingu verkefnisins hér á landi. Verkefnið er styrkt og sett á laggirnar af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu og mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynntu verkefnið á blaðamannafundi í Réttarholtsskóla í Reykjavík, 29. febrúar og hleyptu verkefninu af stokkunum - hægt er að sjá kynninguna HÉR
Nánari upplýsingar
Ragna Anna Skinner |
|
5254207 | ragnaskinner [hjá] hi.is | stækkaðu framtíðina;;first lego league;;menntaverkefni;;samfélagsverkefni;;steam;;tónlistarkennsla;;viðburðarstjórnun;;grunnskólakennsla | Nýsköpun og menntasamfélag |